5.9.2019

Setning Alþingis þriðjudaginn 10. september 2019

Alþingi verður sett þriðjudaginn 10. september og hefst þingsetningarathöfnin kl. 13:30 með guðsþjónustu í Dómkirkjunni. Séra Kristinn Ágúst Friðfinnsson predikar og séra Sveinn Valgeirsson, sóknarprestur í Dómkirkjunni, þjónar fyrir altari ásamt biskupi Íslands, frú Agnesi M. Sigurðardóttur. Dómorganistinn Kári Þormar leikur á orgel og Kammerkór Dómkirkjunnar syngur við athöfnina.

Að guðsþjónustu lokinni ganga forseti Íslands, biskup Íslands, forseti Alþingis, ráðherrar, alþingismenn og aðrir gestir til þinghússins.

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, setur Alþingi, 150. löggjafarþing. Félagar í Schola cantorum syngja við þingsetningarathöfnina, undir stjórn Harðar Áskelssonar. Þá flytur forseti Alþingis ávarp.
Þingsetningarfundi verður síðan frestað til kl. 16:00. Þá verður hlutað um sæti þingmanna og fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2020 útbýtt.

Hljóðútsending verður frá messu og sjónvarpsútsending frá þingsetningarfundi á sjónvarpsrás og vef Alþingis. Sjónvarpsútsending verður frá þingsetningarfundi á RÚV. Útvarpsútsending verður á Rás 1 frá messu og þingsetningu.

Stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana verða miðvikudagskvöldið 11. september kl. 19:30.

Fjármálaráðherra mælir fyrir frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2020 fimmtudaginn 12. september kl. 10:30.